Aðalfundur Geðhjálpar 16. maí 2020

Aðalfundur Geðhjálpar 2020

Haldinn í Valsheimilinu við Hlíðarenda þann 16. maí 2020 kl. 14:00

Einar Þór Jónsson fráfarandi formaður setur fundinn og stingur upp á Helgu Baldvins Bjargardóttir sem fundarstjóra. Fundarmenn samþykkja tillöguna einróma.

Fundarstjóri tekur við. Fer yfir lögmæti fundarins en hann var auglýstur í dagblaði þremur vikum fyrir fund og einnig fengu félagsmenn sendan tölvupóst  – allt samkvæmt lögum félagsins. Lögmæti fundarins var samþykkt af fundarmönnum.  Fundarstjóri stingur upp á Halldóri Auðar Svanssyni  sem fundarritara. Fundarmenn samþykkja tillöguna einróma.

 1. Tillögur um framboð kynntar

Alls buðu sjö manns sig fram til stjórnar og einn til formennsku. Formaður sagði af sér formennsku á síðasta stjórnarfundi og býður sig fram til stjórnar. Þar eð formannsefni sat í stjórn félagsins og sagði sig úr stjórn tók varamaður hans í stjórn sæti hans á stjórnarfundi þann 14. maí sl. samkvæmt lögum samtakanna. Sigríður Gísladóttir er því aðalmaður næsta árið og er því ekki í framboði lengur. Eftir standa sex frambjóðendur í fjögur laus sæti í aðalstjórn og fjögur varamannasæti. Það þýðir að það vantar tvo frambjóðendur í varastjórn. Tillaga stjórnar er að kosið verði í tvö varamannasæti núna í stað þess að halda framhaldsaðalafund síðar í sumar. Fari svo að þrír aðalmenn hætti í stjórn fyrir næsta aðalfund verði kallað til auka aðalfundar.  Fundarmenn samþykkja tillöguna einróma.

Framboð til formanns er:

Héðinn Unnsteinsson

Framboð til stjórnar eru í stafrófsröð:

 1. Ágústa Karla Ísleifsdóttir
 2. Einar Þór Jónsson
 3. Elín Ebba Ásmundsdóttir
 4. Hlynur Jónasson
 5. Kristinn Tryggvi Gunnarsson
 6. Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir

Fundarstjóri tilkynnti að kosningabærir væru komnir með atkvæðaseðla í hendurnar. Þegar kæmi að kosningu veldu þeir allt að átta stjórnarmenn/konur með því að setja allt að fjögur x í reitina fyrir aftan nöfnin á kjörseðlinum. Merkja mætti við færri en fjóra, en ekki fleiri, því með því væri kjörseðillinn ógildur. Þeir fjórir sem fengju flest atkvæði færu í aðalstjórn, en þeir sem kæmu þar á eftir færu í varastjórn. Fengju einhverjir jafnmörg atkvæði réði hlutkesti því hver raðast ofar í endanlegu röðina inn í stjórnina.

 1. Skýrsla stjórnar

Einar Þór Jónsson fráfarandi formaður kynnti skýrslu stjórnar um starfsárið 2019 og stiklaði á stóru í starfsemi samtakanna á liðnu starfsári og það sem hefur verið í gangi á sviði geðheilbrigðismála í samfélaginu. Í máli hans kom fram að árið hefur verið viðburðaríkt hjá Geðhjálp og miklar breytingar orðið.

Á síðasta ári fagnaði Geðhjálp 40 ára afmælið og var það gert með miklum stæl, með afmælishátíð sem og menningarhátíð sem kallaðist Klikkuð menning og var mjög áberandi um allan bæ.

Mannaskipti hafa verið nokkur á árinu. Einar Þór tók við formennsku af Hrannari Jónssyni og Grímur Atlason tók við stöðu framkvæmdastjóra af Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur. Helga Árnadóttir tók við starfi ráðgjafa af Ólöfu Birnu Björnsdóttur. Fráfarandi formanni þakkar þeim sem látið hafa af störfum fyrir vel unnin störf.

Einar Þór fer yfir tölfræði um ráðgjöf á árinu, eins og hún birtist í skýrslu stjórnar.

Geðhjálp veitti jákvæða umsögn um frumvarp til laga um neyslurými til handa fólki í fíknivanda en útlit er fyrir að það verði samþykkt á yfirstandandi þingi og fagnar Einar Þór því.

Einar Þór rekur verkefni á sviði fræðslu og ráðgjafar, nefnir þar Klikkaða menningu og áframhaldandi starf Bataskóla Íslands.

Bergið Headspace fyrir ungt fólk var opnað í fyrra og Pieta-samtökin hafa uppfyllt ákveðna þörf á sviði stuðnings og ráðgjafar.

Einar Þór rekur málþing vegna Klikkaðrar menningar þar sem fram komu Kári Stefánsson og Mary O‘Hagan frá Nýja-Sjálandi og Arnhild Lauveng frá Noregi.

Stuðningshópar hafa verið starfandi á vegum Geðhjálpar; kvíðahópur, geðhvarfahópur og við bættist aðstandendahópur í fyrra.

Einar Þór ávarpar það að kostnaður við Klikkaða menningu fór fram úr áætlun en fjárhagur félagsins er samt enn traustur.

Stjórn félagsins hefur unnið með ráðgjafa Capacent að stefnumótun félagsins. Stefnumótun liggur fyrir en fráfarandi stjórn ákvað að vísa samþykkt og innleiðingu stefnunnar til næstu stjórnar.

Einar Þór nefnir fjárskort á sviði geðheilbrigðismála; málaflokkurinn er um 30% af umfangi heilbrigðiskerfisins en fær einungis um 10% fjármagnsins. Það sé nánast regla að þegar nýtt úrræði bætist í flóruna þá sé skorið niður annars staðar og að of mikið sé um að aðilar sem sinna þjónustu í málflokknum þurfi að bítast um fjármagn sín á milli. Það þarf að stórbæta aðkomu notenda að þjónustunni, þó það sé á réttri leið má bæta við. Kerfið hefur hingað til of mikið verið sniðið að þörfum þeirra sem veita þjónustuna en síður að þörfum þeirra sem þiggja hana. Fordómar virðast landlægir innan kerfisins þegar kemur að fólki með geðrænar áskoranir, þessu þarf að breyta og hið opinbera þarf að vera leiðandi í þeirri hugarfarsbreytingu. Huga þarf vel að forvörnum og byggja þær upp. Aðstandendum þarf að sinna betur og veita þeim áhrifavald, þetta er lengra komið á öðrum sviðum í kerfinu svo sem í stuðningi við aðstandendur krabbameinssjúklinga.

Allt í allt var þetta ár grósku, mikið að gerast og við erum líklega öll farin að hugsa aðeins út fyrir kassann. Verðum að vera samtaka og vera í góðu samstarfi, gera þetta saman. Það kemst ekkert áfram nema við gerum það þannig. Mættum til dæmis tengja betur við erlend systursamtök.

 1. Kynning ársreiknings

Pétur Valdimarsson frá Spekt kynnti ársreikning félagsins fyrir starfsárið 2019. Hann sagði stjórnina hafa samþykkt og undirritað reikninginn.

Hægt er að nálgast reikninginn á heimasíðu Geðhjálpar og í fjölriti hjá samtökunum.

 1. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning

Fundarstjóri bauð fundargestum að bera fram spurningar um ársskýrslu og ársreikning.

Sveinn Rúnar Hauksson spyr um endanlegan kostnað við Klikkaða menningu þar sem mismunandi tölur hefðu sést. Framkvæmdastjóri bregst við þessu og segir að það hafi verið flókið að skipta þessum kostnaði af því það færi eftir því hvernig laun starfsmanns sem sinnti verkefninu væri tilgreindur, undir hvaða lið þau væru færð.

Guðlaugur Ellertsson spyr út í tölfræði um meðalfjölda viðtala vegna ráðgjafar. Framkvæmdastjóri segir rétt að þetta er ekki alveg reiknað í skýrslunni, réttur meðalfjöldi viðtala sé 2,9.

Sveinn Rúnar Hauksson kveður sér hljóðs þakkar Önnu Gunnhildi fráfarandi framkvæmdastjóra fyrir vel unnin störf en ítrekar að hann hafi helst gagnrýnt hana fyrir hvað hún hafi verið mikið áberandi á kostnað stjórnarinnar, það sé strax að breytast núna að stjórnin sé orðin meira áberandi. Þetta sé mikilvægur liður í að rödd notenda heyrist. Sveinn Rúnar segir að Klikkuð menning hafi klikkað, þó að margt skemmtileg hafi verið þarna í gangi þá hafi verið of margir viðburðir hver ofan í öðrum sem hafi leitt til þess að þátttaka var sáralítil. Það sé ekki hægt að kenna einhverjum um en skipulagsleysi hafi einfaldlega verið galið. Sveinn Rúnar rekur líka störf starfshópsins um 28. gr. lögræðislaga um þvingaða lyfjameðferð sem hann átti sæti í, segir að það hafi verið ánægjulegt að vinna í þessum hópi og gott hjá stjórninni að hafa gert kröfu um að eiga fulltrúa í starfshópnum. Á hinn bóginn sé frekar snúið að sitja í hópi sem ætlað er að milda 28. greinina en vera í raun alfarið á móti henni. Hann vonast til þess að pólitískur starfshópur undir formennsku Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur muni taka þetta föstum tökum.

Sveinn Rúnar segist vilja bjóða sig fram til varastjórnar. Fundarstjóri bregst við því með því að rekja það að samkvæmt lögum félagsins verða framboð að berast viku fyrir aðalfund – því verði því frestað fram til liðarins Önnur mál að taka afstöðu til tilboðs Sveins Rúnars. Fundargestir samþykkja tillöguna.

Einar Þór bregst við ummælum Sveins Rúnars um Klikkaða menningu og segir að helsti vandinn hafi verið skortur á samstarfi við fleiri hópa og fólk á sviði geðheilbrigðismála, í stað þess að Geðhjálp hafi verið að bera þetta ein, en er ekki alveg sammála því að hátíðin hafi klikkað.

Fundarstjóri ber ársreikning fram til samþykktar og er hann samþykktur einróma af fundarmönnum.

 1. Ákvörðun um félagsgjald næsta árs

Tillaga frá stjórn um óbreytt árgjald: 2.400 kr. Engar aðrar tillögur bárust frá fundarmönnum og var tillagan því samþykkt.

 1. Kosning formanns

Fundarstjóri sagði frá því að einn gæfi kost á sér til formanns, Héðinn Unnsteinsson, og að hann væri þar með sjálfkjörinn.

Héðinn fær orðið og heldur stutta tölu. Hann rekur það hvernig hann kom fyrst inn í Geðhjálp árið 1992, þegar félaginu var stýrt af fagfólki, læknum og geðhjúkrunarfræðingum. Hann segir að síðasta ár hafi verið skemmtilegt og viðburðaríkt og nefnir varðandi Klikkaða menningu að hún hafi pínu fallið milli skips og bryggju við formanns- og framkvæmdastjóraskipti. Héðinn rekur stefnumótunina sem stjórnin hefur klárað og fyrirhugað er að verði innleidd af næstu stjórn. Hann nefnir vinnuna við endurskoðun lögræðislaga og hugmynd sína sem hann hefur stungið að heilbrigðisráðherra um að gera Ísland hreinlega að þvingunarlausu samfélagi. Hvað sem öðru líður hafi endurskoðun lögræðislaga 2015 verið framfaraskref og að reglugerðarbreytingin nú sé líka framfaraskref og að það verði áfram framfarir. Aðalmálið sé meðvitund um hversu vond áhrif þvingun hafi á fólkið sem fyrir henni verður. Héðinn leggur áherslu á víðtækt samstarf við önnur félög, að efla, rækta og gera öðrum kleift að gera góða hluti. Við búum við 150 ára gamla narratívu um geðheilbrigðismál og þess vegna sé mikilvægt að auka þátttöku notenda og aðstandenda sem mótvægi við hina ríkjandi narratívu. Mikilvægt sé að hafa einn samráðsvettvang um geðheilbrigðismál sbr. velferðarvaktina. Það þarf að halda áfram að flytja þjónustuna út í samfélagið og passa að sjúkrahúsið fylgi ekki á eftir. Auka þarf áherslu á geðheilbrigði barna. Áherslu þarf að leggja á á fjárveitingar séu í samræmi við raunverulega þörf, sbr. tölfræði um hvað umfangið er í raun mikið miðað við fjármagnið sem málaflokkurinn fær. Koma þarf fá sjálfstæðri þingnefnd til að gera úttekt á geðheilbrigðiskerfinu í heild sinni. Héðinn er líka sammála því að það þarf að auka samstarf við erlenda aðila. Mikilvægt sé að vinna áfram gegn fordómum og endurtaka viðhorfskönnun sem gerð var árið 2009 til að skoða hvað hefur áunnist í að breyta viðhorfum.

Héðinn vonast eftir góðu samstarfi við nýja stjórn og þakkar fráfarandi stjórn fyrir samvinnuna á þeim vettvangi.

 1. Kynning á frambjóðendum

Fundarstjóri gaf frambjóðendum í stjórn tækifæri á að kynna sig og ástæður framboðs síns, miðað var við 2 mínútur á hvern frambjóðanda, sem komu upp í pontu í þessari röð:

 • Ágústa Karla Ísleifsdóttir
 • Einar Þór Jónsson
 • Elín Ebba Ásmundsdóttir (kynnir sig í gegnum myndbandsupptöku, þar sem hún er í einangrun)
 • Hlynur Jónasson
 • Kristinn Tryggvi Gunnarsson
 • Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir

Fundarstjóri minnti á að kosningabærir mættu merkja við allt að fjóra krossa, en minnst einn, og að hlutkesti réði ef einhverjir fengju sama atkvæðamagn.

Fundarstjóri tilkynnti að fyrir fundinum lægi tillaga um að Ingólfur H. Ingólfsson og Guðlaugur Ellertsson yrðu skoðunarmenn reikninga yfirstandandi árs, sem og síðustu ára. Tillagan er samþykkt einróma.

 1. Kaffihlé

Atkvæðum skilað og talning hefst. Talninganefnd: Fanney Ómarsdóttir, Ásta Júlía Grímsdóttir og Bergþór Böðvarsson formaður talninganefndar.

 1. Önnur mál
 • Héðinn Unnsteinsson kynnir tillögu stjórnar um að stofnaður verði Styrktarsjóður Geðhjálpar. Hann byrjar á að rekja sterka eiginfjárstöðu félagsins sem að mestu leyti má rekja til hagnaðar af sölu húsnæðisins við Tryggvagötu. Hugmyndin að styrktarsjóði er til komin út frá þeirri hugmynd að réttara sé að ráðstafa þessum fjármunum í góð verkefni í stað þess að liggja á þeim, enda verði samtökin reglulega vör við eftirspurn eftir styrktarfé. Héðinn leggur til að aðalfundur samþykki að að veita nýrri stjórn heimild til að stofna sjóðinn í samræmi við samþykkt stjórnar og skipulagsskrá.
 • Sjóðurinn taki til starfa eftir aðalfund Geðhjálpar 2021. Fundarstjóri ber tillöguna upp og er hún samþykkt.
 • Héðinn Unnsteinsson nýkjörinn formaður þakkar fráfarandi formanni og stjórnarmönnum þeirra framlag og leysir þá stjórnarmenn sem eru að ljúka störfum út með blómagjöfum: Garðar Sölva Helgason, Sylviane Lecoultre, Einar Þór Jónsson og Bergþór Böðvarsson.
 • Tilboð Sveins Rúnars Haukssonar um að vera í varastjórn. Þar sem ekki buðu sig nægilega margir fram til stjórnar til að fylla öll laus sæti þá hefur tillaga hans ekki áhrif á önnur framboð. Fundarstjóri leggur því til við fundinn að boð Sveins Rúnars um að vera í varastjórn verði samþykkt. Fundarmenn samþykkja tillöguna og Sveinn Rúnar tekur því sæti í varastjórn.
 • Önnur mál úr sal
 • Sveinn Rúnar Hauksson kveður sér hljóðs til að þakka fráfarandi stjórnarmönnum fyrir þeirra störf.
 1. Úrslit kosninga

Fyrir hönd talninganefndar kom Bergþór Böðvarsson í pontu og segir að 17 kosningaseðlar hefðu skilað sér, allir gildir.

Samkvæmt þeim voru kosin í aðalstjórn: Elín Ebba Ásmundsdóttir, Ágústa Karla Ísleifsdóttir og Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir. Einar Þór Jónsson og Hlynur Jónasson hlutu jafn mörg atkvæði, gert var hlutkesti milli þeirra og Einar Þór sigraði í því.  Í varastjórn hlutu þá kosningu: Hlynur Jónasson og Kristinn Tryggvi Gunnarsson.

 1. Fundarslit

Fundarstjóri sagði þar með fundinum slitið og fór þá fram myndataka þar sem ný stjórn Geðhjálpar var mynduð, sem og fráfarandi stjórnarmenn.

Fundinum lauk um klukkan 16.20.

Hægt er að nálgast pdf-útgáfu hérna.