Sjálfstætt starfandi aðilar

Sjálfstætt starfandi aðilar eru þónokkrir. Hér að neðan verður stiklað á stóru varðandi þá og frekari ábendingar eru vel þegnar. Við bendum einnig á gulusíðurnar á vefsíðu ja.is auk þess sem að google.com getur komið að góðum notum við leit að meðferðaraðila.

Þannig er því farið að engir tveir upplifa þá þjónustu sem þeir njóta á sama hátt, þetta á líka við um meðferðarúrræði. Að finna sér meðferðaraðila er eins og að finna sér góða skó, með fullri virðingu fyrir meðferðaraðilum. Meðferð er oft langt ferðalag og brýnt er að þjónustuþeganum líki við meðferðaraðilann. Þessi staðreynd er hornsteinn í þeirri afstöðu Geðhjálpar að mæla ekki með ákveðnum meðferðaraðila. Þeir sem leita sér meðferðar eru hvattir til að vera virkir í meðferð sinni því að án virkrar þátttöku í meðferð næst takmarkaður árangur.

Geðlæknar

Geðlæknar starfa á mismunandi vegu eins og aðrar fagstéttir, þeirra aðall er víðtæk þekking á virkni lyfja á andlega líðan. Geðlæknar beita í sumum tilfellum bæði viðtalsmeðferð og lyfjameðferð.

Reynslan hefur sýnt að fylgjast þarf vel með lyfjagjöf til að ná jafnvægi milli lyfjaskammta, áhrifa og aukinna lífsgæða. Þetta er vert að hafa í huga þegar farið er til geðlæknis. Annað sem skiptir miklu máli er hegðun þín sem þjónustuþega. Það er brýnt vera virkur í eigin meðferð til að ná hámarksárangri. Það þýðir að þú fylgist með hvaða áhrif lyfin hafa á þig, auka verkanir sem og jákvæð áhrif þeirra. Gott getur verið að skrifa niður í litla bók þær breytingar sem þú upplifir og hvað þú telur að megi betur fara. Í þessa sömu bók er gott að skrifa niður spurningar um eðli meðferðar, aukaverkanir, af hverju þú ert að fá þetta lyf og hverjar þær aðrar spurningar sem þér dettur í hug. Næst þegar þú hittir geðlækni þinn er best að draga fram bókina og spyrja, en skrá svörin jafnframt niður.

Verða geðlæknarnir ekki pirraðir ef maður spyr of mikils? Almennt sagt nei. Það er bara ánægjulegt fyrir geðlækninn þegar skjólstæðingur spyr um eðli og áhrif, kemur undirbúinn í tímanna og tekur virkan þátt í bataferlinu. Að hafa skjólstæðing sem vill ná bata, leggur sig fram við að ná bata og er virkur í meðferð eykur oft áhuga og drift fagaðila til að styðja þann sem er í meðferð.

Heimasíða Læknafélags Íslands

Sálfræðingar

Sálfræðingar beita mismunandi aðferðum til árangurs, eins og geðlæknar og aðrir fagaðilar. Sumir beita samtalsmeðferð, aðrir hugrænni atferlismeðferð, enn aðrir nýta reynslumeðferð (exposure therapy) og svo mætti lengi telja.

Þegar leitað er til sálfræðings þarf viðkomandi að vera tilbúinn til að vinna í sínum málum, vera virkur, spyrja og fylgjast með breytingum á eigin líðan. Enn sem fyrr er mælt með því að skrifa niður spurningar í litla bók, mæta í næsta tíma undirbúinn og hafa sinnt „heimaverkefnum“.

Upplýsingar um sálfræðinga má finna á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands. Þar er að finna leitarvél sem hjálpar til við að finna sálfræðing við hæfi eftir landshlutum og meðferðarformi svo eitthvað sé nefnt.

Á heimasíðu félags um hugræna atferlismeðferð má finna lista yfir þá sem aðhyllast það meðferðarform, iðulega eru það einstaklingar sem lokið hafa námi í hugrænni atferlismeðferð.

Fjargeðheilbrigðisþjónusta

Mín líðan býður upp á sálfræðimeðferð á netinu við einkennum þunglyndis og félagskvíða.