Á landinu eru starfandi fjöldi sjálfshjálparhópa. Sumir eru undir handleiðslu fagaðila.

Við skilgreinum sjálfshjálparhóp sem:

Hóp fólks með sameiginlegt viðfangsefni sem sækist eftir því að efla eigin bjargráð með því að deila reynslu sinni og hlusta á reynslu annarra.  Þessi samskipti hafa það markmið að nýta reynslu á jákvæðan hátt fyrir sjálfan sig og aðra.

Hóparnir eru mismunandi að gerð og upplagi, sumir byggja á trúarlegum gildum, svo sem 12 sporahópar, meðan aðrir einblína á miðlun reynslu milli einstaklinga.

Nokkrir sjálfshjálparhópar hittast í húsnæði Geðhjálpar að Borgartúni 30.

Að gefnu tilefni er rétt að taka það fram að þeir eru ekki á ábyrgð eða undir umsjá /eftirliti Geðhjálpar. Starfsfólk Geðhjálpar veitir þó fúslega upplýsingar um hópana í síma 570 1700.

Þeir hópar sem hittast að Borgartúni 30 eru sem hér segir:

Kvíðahópurinn hittist í húsnæði Geðhjálpar kl 19 á miðvikudögum.

Geðhvarfahópur hittist í húsnæði Geðhjálpar kl 20 á fimmtudögum

Aðrir sjálfshjálparhópar:

Geðklofahópur hittist í Vin, Hverfisgötu 47 á föstudögum kl. 13:30 til 14:30

Í Hugarafli er starfræktur sjálfshjálparhópur fyrir aðstandendur, frekari upplýsingar

12 spora samtök
Hér að neðan er listi yfir nokkur 12 spora samtök sem eru starfandi a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu.

AA – Alkahólistar
AA samtökin eru félagsskapur karla og kvenna sem samhæfa reynslu sína, styrk og vonir svo að þau megi leysa sameiginlegt vandamál sitt og séu fær um að hjálpa öðrum frá áfengisbölinu. Til þess að gerast AA félagi þarf aðeins eitt; Löngun til að hætta að drekka. Inntöku eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farborða. AA samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála. Höfuðtilgangur okkar er að vera ódrukkin og að styðja aðra alkóhólista til hins sama.
Heimasíða: AA

Aba – Anorexíur og búlímíur
Anorexics and bulimics anonymous (ABA) Til þess að gerast félagi þarf aðeins eitt: löngun til þess að hætta óheilbrigðum matarvenjum. Inntöku- eða félagsgjöld eru engin en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalegan farborða. ABA er óháð hvers kyns félagasamtökum, stofnunum og tengist ekki trúarbrögðum á neinn hátt.
Heimasíða: ABA

Al-anon – Aðstandendur alkahólista
Er félagsskapur karla, kvenna og unglinga sem hafa orðið fyrir áhrifum af drykkju ættingja eða vinar. Al-Anon er sjálfshjálparaðferð byggð á tólf reynslusporum AA-samtakanna. Félagar deila reynslu sinni, styrk og vonum svo þeir megi leysa sameiginlega vandamál sín.
Alateen er félagsskapur unglinga sem hefur orðið fyrir áhrifum vegna drykkju annarra. Alateen er hluti af fjölskyldudeildunum. Til þess að gerast félagi þarf aðeins eitt, að ættingi eða vinur hafi átt eða eigi í vanda vegna alkóhólisma. Al-Anon fjölskyldudeildirnar hafa aðeins einn tilgang: Að hjálpa fjölskyldum og vinum alkóhólista. Ef þú berð umhyggju fyrir einhverjum sem á við áfengisvanda að stríða getur Al-Anon leiðin hjálpað þér.
Heimasíða: Al-anon
Coda – Nafnlausir meðvirklar
Er félagsskapur karla og kvenna sem eiga þann sameiginlega tilgang að þróa með sér heilbrigð sambönd. Einu skilyrði til aðildar er löngun í heilbrigð og fullnægjandi sambönd. Við komum saman til að deila með hvort öðru reynslu okkar, styrk og vonum á leið okkar til sjálfsvakningar – lærum að elska sjálfið. Að lifa prógramið leyfir hverju okkar að verða heiðarlegri við okkur sjálf með því að skoða okkar persónulegu sögu og eigin meðvirku hegðun. Við treystum á tólf spor og tólf erfðavenjur í leit að þekkingu og visku. Þetta eru meginreglur pógrams okkar og leiðbeina okkur til þess að geta átt heiðarleg og fullnægjandi samskipti við okkur sjálf og aðra. Inntöku- eða félagsgjöld eru engin, en með innbyrðis samskotum sjáum við okkur efnalega farboða.
Heimasíða: CODA

DA – Nafnlausir skuldarar
Við, karlar og konur í Debtors Anonymous, komum saman til að leysa sameiginlegt vandamál okkar, sem er hömlulaus skuldasöfnun. Við deilum reynslu okkar, styrk og vonum til að stöðva skuldasjúkdóminn. Við höfum kynnst hömlulausri skuldasöfnun sem ársaukafullum, ruglandi og eyðandi afli? Hömlulaus skuldasöfnun birtist í ýmsum myndum allt frá því að taka óábyrg lán til hömlulauss kaupæðis, frá ofeyðslu? til fátæktarhugsunar/að eiga ekki nóg. Öll skuldasöfnun hefur alvarleg áhrif á fjárhagsleg, tilfinningaleg, andleg, líkamleg og félagsleg gæði lífs okkar.
Heimasíða: DA

DRA – Tvíþættur vandi
Dual Recovery Anonymus eru sjálfstæð, sjálfshjálparsamtök áhugamanna með tvíþætta greiningu með tólfsporavinnu að leiðarljósi. Markmið okkar er að hjálpa körlum og konum sem eru haldin tvíþættum sjúkdómi. Við erum haldin efnafíkn og við erum einnig haldin tilfinningalegum eða geðrænum sjúkdómi. Báðir kvillarnir hafa áhrif á líf okkar á öllum sviðum, líkamlega, sálrænt, félagslega og andlega.

GA – Spilafíkn
Verið velkomin á vefinn Spilafíkn.is. Honum er ætlað að hjálpa fólki í vanda auk þess sem áhugafólk um spilafíkn getur fundið hér ítarlegar upplýsingar um sjúkdóminn. Það er von aðstandenda vefjarins að hann verði til þess að fólk sem glímir við spilafíkn leiti sér meðferðar.
Heimasíða: Spilafíkn

GSA – Matarfíkn
SA er félagsskapur fólks sem hefur fengið lausn á vandamálum sínum tengdum mat. GSA samtökin byggja á Gráu síðunni og 12 spora kerfi AA samtakanna til að ná og viðhalda svokölluðu fráhaldi frá vanda sínum.
Allir eru velkomnir á fundi.
Heimasíða: GSA

NA – Fíkniefnaánetjun
N.A. er hagnaðarlaus félagsskapur eða samfélag karla og kvenna sem hafa átt í miklum erfiðleikum með fíkniefni.
Við erum fíklar á batavegi sem hittast reglulega svo við megum hjálpa hvert öðru að haldast edrú.
Heimasíða: N.A.

OA – Matarfíkn eða átröskun
OA er ekki megrunarklúbbur og setur engin skilyrði um þyngdartap. Með því að viðurkenna vanmátt okkar gagnvart mat, og að kasta frá sér þeirri hugsun að maður þurfi á “viljastyrk” að halda til að stjórna áti sínu, verður maður fær um að halda sig frá ofáti – einn dag í einu. Ef þú vilt vita meira, ert þú boðin/n velkomin/n á fund hjá OA. Á fundum er algjör trúnaður, þ.e. þegar fundinum er lokið er ekki rætt um hverjir voru á fundunum eða hvað þeir sögðu þar. Það kostar ekkert að fara á fundi og þú ert velkomin/n á hvaða fund sem er á fundarskránni okkar.
Heimasíða: OA

SASA – Fórnalömb kynferðismisnotkunar
Þetta eru blandaðir fundir. Það hefur sýnt sig að afleiðingar kynferðislegs ofbeldis eru kynlausar, það skiptir ekki máli af hvaða kyni við erum. Vandamálin eru þau sömu og lausnin er sú sama.
Eins og það hefur sýnt sig í öðrum 12 spora samtökum þá erum við ekki ein. Það sem þú lentir í var ekkert persónulegt gagnvart þér, það vildi bara svo til að þú varst þarna. Þögnin þín er óþarfi, eins og hún var hjá okkur.
Fundarformið er hefðbundið 12 spora fundarform.

SLAA – Ástar og kynlífsfíkn
SLAA (Sex and Love Addicts Anonymous). Samtökin bjóða öllum þeim aðstoð, sem haldnir eru ástar- og/eða kynlífsfíkn og vilja losna úr viðjum hennar. Þar sem allir meðlimirnir þekkja fíknina af eigin raun, skilja þeir hver annan og sjúkdóminn betur en flestir aðrir.
SLAA er félagsskapur byggður á grunni tólf reynsluspora og tólf erfðavenja AA-samtakanna.
Eina skilyrðið fyrir þátttöku í SLAA er löngun til að losna undan áþján ástar- og kynlífsfíknar. Hver deild er rekin með frjálsum framlögum meðlima og er opin öllum sem eru hjálparþurfi.
Heimasíða: SLAA.is

Vinir í bata – Stjórnleysi almennt
Upplifirðu stjórnleysi í lífi þínu og að þú ráðir ekki alltaf við aðstæður?
Hefurðu einhvern tíman velt því fyrir þér að þig langaði til og/eða þú þyrftir á því að halda að skoða lífið þitt – hvert þú stefnir – hverjar tilfinningar þínar eru og hvernig þú getur bætt samskipti þín við annað fólk?
Veistu að Tólf sporin eru kjörið verkfæri til þess arna. Við erum mörg sem getum vitnað um það af eigin reynslu.
Heimasíða: Vinir í bata