Hvert er hægt að leita
Þegar sú niðurstaða er fengin að vandi einstaklingsins sé meiri en svo að viðkomandi ráði við hann vaknar spurningin um hvert hægt sé að leita til að fá aðstoð. Hér verður reynt að gefa yfirlit yfir þau úrræði sem í boði eru.
Þannig er því farið að engir tveir upplifa þá þjónustu sem þeir njóta á sama hátt, þetta á líka við um meðferðarúrræði. Að finna sér meðferðaraðila er eins og að finna sér góða skó, með fullri virðingu fyrir meðferðaraðilum. Meðferð er oft langt ferðalag og brýnt er að þjónustuþeganum líki við meðferðaraðilann.
Þessi staðreynd er hornsteinn í þeirri afstöðu Geðhjálpar að mæla ekki með ákveðnum meðferðaraðila. Þeir sem leita sér meðferðar eru hvattir til að vera virkir í meðferð sinni, skrifa hjá sér spurningar, aukaverkanir lyfja, vangaveltur um aðferðir og síðast en ekki síst vera tilbúnir til að endurskoða tilgang og eðli meðferðarinnar. Ekki má gleyma að gera þá sjálfsögðu kröfu á meðferðaraðilann að hann / hún hlusti og komi til móts við þarfir þess sem er í meðferð.
Vakin er athygli á því að án virkrar þátttöku í meðferð næst takmarkaður árangur.
Til að einfalda leitina hefur verið ákveðið að flokka þá aðstoð sem veitt er eftir sviðum, svo sem heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta, sjálfstætt starfandi aðilar, hagsmunasamtök og sjálfshjálparhópar.